Vonskuveður á landinu

Í dag verður vonskuveður á landinu og er óveðrið heldur fyrr á ferðinni en gert var ráð fyrir. Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eru í viðbragðsstöðu vegna veðursins og þegar byrjaðir að sinna útköllum og hefur öllu innanlandsflugi hjá Flugfélagi Íslands verið aflýst í dag. Veðurhamurinn verður einna minnstur á Vestfjörðum, þó talsvert blási með ofankomu að auki, en Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir vaxandi austanátt með snjókomu, 18-25 m/s seint í dag, þá hlýnar og ofankoma breytist í slyddu. Það lægir nokkuð í kvöld og má búast við suðvestan 10-18 m/s og éljum í nótt, en dregur smám saman úr vindi á morgun og frystir. 

Vegagerðin hefur vaðið fyrir neðan sig og hefur gefið út tilkynningu um lokanir á vegum í dag. Á Kjalarnesi skefur og þar verða hviður 35-40 m/s frá hádegi. Hvessir fljótlega austur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal og fljótlega hviður þar allt að 40-50 m/s í A-áttinni. Útlit er fyrir að versni á Reykjanesbraut upp úr kl. 12 og þar vindur um 25 m/s þvert á, með hviðum allt að 35-40 m/s samfara krapa og vatnsaga. Á Holtavöruheiði og Bröttubrekku gerir síðan hríðarveður um miðjan dag. Á Austfjörðum mun smámsaman gera stórhríðarveður og hvessir með skafrenning austan- og norðaustanlands einnig. Hríðarveður eins á fjallvegum Vestfjarðar þegar kemur fram á daginn. SV-lands má reikna með að það lægi í kjölfar skilanna á milli kl. 16 og 17.

Lokanir í dag verða sem hér segir:

09:00 – 18:00 Eyjafjöll og Hellisheiði

11:00 – 18:00 Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði

12:00 – 17:00 Reykjanesbraut

12:00 – 18:00 Kjalarnes og Hafnarfjall

15:00 – 21:00 Holtavörðuheiði og Brattabrekka

16:00 og fram á kvöld Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði, Fagridalur og Oddsskarð.

annska@bb.is

DEILA