Vinnsla gæti hafist á morgun

Ef vel fiskast þá gæti vinnsla í frystihúsi  Hraðfrystihúss – Gunnvarar í Hnífsdal hafist á morgun að sögn Kristjáns G. Jóakimssonar, vinnslustjóra HG. Engin vinnsla hefur verið í Hnífsdal frá því að verkfall sjómanna skall á um miðjan desember. Páll Pálsson ÍS hélt til veiða í gærmorgun, Júlíus Geirmundsson ÍS fór út um miðnætti í gær og ráðgert að Stefnir ÍS haldi á miðin í kvöld.

Þrátt fyrir að vinnslan hafi legið niðri í Hnífsdal hefur góður hópur starfsfólks HG verið við vinnslu á regnbogasilungi í Íshúsinu á Ísafirði. „Við erum búin að slátra okkar fiski og við höfum líka komið að vinnslu á fiski fyrir Arctic Fish. Þetta hefur verið samstarfsverkefni fyrirtækjanna,“ segir Kristján.

Hann hefur ekki fengið fregnir af skipunum um fiskirí, en í gegnum tíðin er reynslan að það sé gott eftir svo langa hvíld.

smari@bb.is

DEILA