Ísafjarðarbær hefur ekki greitt leigu til Norðurtangans ehf. fyrir geymslupláss fyrir söfnin á Ísafirði. Í ágúst 2015 var undirritaður 10 ára leigusamningur milli Ísafjarðarbæjar og Norðurtangans ehf. um leigu á 408 fermetrum í Norðurtangahúsinu. Samkvæmt ákvæðum samningsins átti bærinn að fá húsnæðið afhent 1. janúar 2016, eða fyrir rúmu ári. „Við féllumst á að fresta því til júní 2016 en það hefur því miður ekki staðist,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Hann segir að bærinn hafi sýnt leigusala skilning á því að ýmislegt óvænt hafi komið upp við framkvæmdir í húsinu en þær eru umtalsverðar svo það verði hæft til að hýsa viðkvæma muni safnanna.
Hann fundaði í gær með forsvarsmanni Norðurtangans ehf. „Það stendur upp á Norðurtangann að gefa okkur dagsetningu sem fyrst og ég vonast til að við getum fengið húsið afhent fljótlega. En það er alveg ljóst að við bíðum ekki út í hið óendanlega,“ segir Gísli Halldór sem útilokar ekki að bærinn rifti samningnum en vonar að til þess komi ekki.
Forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða lýsti því í samtali við BB í síðustu viku að húsið fullnægi ekki kröfum og safnið ætli að rifta leigusamningi við Ísafjarðarbæ. Gísli Halldór segir að Ísafjarðarbær hafi ekki samþykkt að Byggðasafnið dragi sig út úr samningnum. „Okkur hefur ekki borist ákvörðun stjórnar safnsins um þetta þannig að við vinnum málið ennþá þannig að Byggðasafnið taki þátt.“
Samkvæmt samningi er fermetraverð leigunnar 1.500 kr. eða 612 þúsund kr. á mánuði. Eins og áður segir hefur bærinn ekki greitt leigu til Norðurtangans ehf. með einni undantekningu þó. „Vegna þess að forstöðumaður Byggðasafnsins ákvað að flytja hluta af safnmunum inn í húsið þurftum við að greiða leigu í skamma stund. En þar sem húsið er ekki tilbúið er leigan eignfærð hjá Ísafjarðarbæ og er eins og fyrirframgreidd leiga,“ segir Gísli Halldór.
smari@bb.is