Tvö tilboð í viðlegustöpul

Viðlegustöpullinn mun styðja við skut stórra skipa sem leggjast upp að Mávagarði.

Á þriðjudag voru opnuð tilboð í gerð viðlegustöpuls á Mávagarði í Ísafjarðarhöfn. Tvö tilboð bárust. Annað frá Ísar ehf. upp á 46,2 milljónir kr. og hitt frá Geirnaglanum ehf. upp á 69,9 milljónir kr. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 46,7 milljónir kr. Stór olíuflutningaskip hafa átt örðugt með að liggja við Mávagarð í vissum vindáttum, þar sem hætta er á að skutur skipanna reki upp í grjótgarðinn. Allt frá því að hafnarmannvirkið á Mávagarði var tekið í notkun hefur hafnarstjórn lagt þunga áherslu á að leysa þetta brýna vandamál með gerð viðlegustöpuls.

smari@bb.is

DEILA