Súðvíkingar ötulastir við hreyfinguna

Það var oft fjör í Súðavíkurskóla þegar hinar ýmsu útgáfur hreyfingar voru iðkaðar. Mynd af heimasíðu skólans.

Á föstudag voru afhentar í sal KSÍ við Laugardalsvöll viðurkenningar til þeirra sem best stóðu sig í Lífshlaupinu þetta árið, en góð þátttaka var í keppninni með 16.124 virka þátttakendur í 1.374 liðum. 5-9% þátttökuaukning er frá síðasta ári í mismunandi flokkum keppninnar og skráðar voru 14.597.297 hreyfimínútur og 183.340 dagar sem náðu daglegu lágmarksviðmiði.

Á dögunum greindum við frá því að Súðavíkurskóli hafi sigrað í flokki grunnskóla með að níutíu nemendum og bar skólinn þar höfuð og herðar yfir aðra keppendur með hlutfall skráðra daga 13,16. Nemendur í Grunnskóla Önundarfjarðar voru einnig ötulir við að hreyfa sig og var skólinn í 5.sæti með 8,82 daga af hreyfingu.

Súðavíkingar sköruðu fram úr í fleiri flokkum og voru starfsmenn Súðavíkurskóla í fyrsta sæti keppninnar í flokki vinnustaða með 10- 29 starfsmenn þar sem 152 vinnustaðir voru skráðir til leiks. Hlutfall skráðra daga hjá starfsmönnunum var 20,8 og hlutfall skráðra mínútna var 1.816. Liðið Naglarnir er skipað harðsnúinni sveit kvenna sem þrælaðist upp um fjöll og út um allar koppagrundir til að ná þessu markmiði, auk þess sem þær stunduðu líkamsrækt þrisvar í viku og fóru reglulega í jóga.

annska@bb.is

DEILA