Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði í desember síðastliðinn starfshóp til að móta stefnu stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir bréf frá starfshópnum á fundi sínum í vikunni þar sem óskað var eftir ítarlegum upplýsingum um hvaða áhrif fiskeldi hefur í sveitarfélaginu og á þau verkefni sem falla undir verksvið sveitarfélagsins.
Starfshópurinn óskar eftir upplýsingum um til dæmis hvort fiskeldi hafi áhrif á tekjur og gjöld sveitarfélagsins, hvort ráðist hafi verið í innviðauppbygginu vegna fiskeldisins og hvernig þau hafi verið fjármögnuð. Hvort störfum hjá þjónustustofnunum eða stjórnsýslu hafi fjölgað og hvort þjónustustig við íbúa hafi breyst.
Einnig spyr starfshópurinn um fólksfjölgun/fækkun vegna atvinnugreinarinnar og áhrif á byggðaþróun, hver staða sé á fasteignamarkaði og hvort bregðast þurfi við á þeim vettvangi. Hvort þörf sé á uppbyggingu samgöngumannvirkja og hvort búast megi við áhrifum á aðrar atvinnugreinar.
Óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til laga og reglugerða, aðkomu að umhverfismálum og skoðun á skipulagi haf- og strandsvæða. Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku er bókað í umsögn um matsáætlun Arctic Sea Farm að bæjarstjórn telur að sveitarfélög eigi að hafa skipulagsvald út að 1 sjómílu út fyrir grunnlínu landhelginnar, sömuleiðis kallar bæjarstjórn eftir því að sveitarfélög fái heimildir til gjaldtöku af þeim aðilum sem nýta svæði í strandsjó til fiskeldis.
bryndis@bb.is