Skattfrjálsir dagpeningar auk eingreiðslu

Verkfallið hefur staðið í rúma tvo mánuði.

Samninganefnd sjómanna gerði samninganefnd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) tilboð í kjaradeilunni á milli sjómanna og útgerða í gær og tekur SFS líklega afstöðu til tilboðsins í dag. Samkvæmt heimildum BB felur tilboðið í sér greiðslu dagpeninga auk eingreiðslu. Olíuverðsviðmið helst óbreytt. Dagpeningagreiðslur til sjómanna eru ekki skattfrjálsar og því þarf ríkisvaldið að breyta reglum til að svo verði en yfirskattanefnd hefur úrskurðað að dagpeningar sjómanna séu ekki frádráttarbærir enda sé ekki um að ræða tilfallandi ferðalög vegna vinnu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að grípa inn í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna með lagasetningu eða með breytingum á skattalöggjöf. Deiluaðilum hafi verið falin umsjá með auðlind þjóðarinnar og beri þá ábyrgð að semja. Þetta sagði Þorgerður Katrín á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. Aðspurð hvort hún hygðist grípa inn í verkfall sjómanna og kjaradeilu þeirra við útgerðina sagði Þorgerður Katrín: „Finnst þér að ég eigi að koma með sértækar aðgerðir, og eins og sumir eru að leggja til, að niðurgreiða laun fyrir útgerðarmenn? Ég er því mótfallin. Ég er mótfallin sértækum aðgerðum.“

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins, BBC, fjallaði í gær um áhrif sjómannaverkfallsins á Íslandi á fiskmarkaðinn í Bretlandi. Martyn Boyers, framkvæmdastjóri Grimsby Fish Dock Enterprises, segir að til greina komi að grípa til frekari uppsagna. Fiskmarkaðurinn í Grimsby er einn sá stærsti í Bretlandi en yfirleitt koma um 75% afurðanna sem þar eru á markaði frá Íslandi. Nú sé þó algengara að sjá aðeins um 100 kassa af þorski frá Íslandi í stað þúsund eins og venjulega, að því er segir í frétt BBC. „Þegar stór birgir eins og Ísland allt í einu staðnar þýðir það að fólk verður að leita að fiski annars staðar, það svo í kjölfarið þrýstir á verðið,“ segir Boyers í samtali við BBC.

Smari@bb.is

DEILA