Ísfirðingurinn og poppstjarnan Helgi Björns ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Síðan skein sól hafa blásið til 30 ára afmælistónleika í Háskólabíói þann 25.mars. Miðar á tónleikana fóru í sölu í síðustu viku og varð fljótt ljóst að uppselt yrði, er æstir aðdáendur sveitarinnar tóku yfir miðasölukerfi Tix um tíma, þá var smellt í aukatónleika sama kvöld til að sem flestir gætu komið og til að sjá og heyra hina goðsagnakenndu sveit sem tryllti lýðinn á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.
Á tónleikunum stíga allir upprunalegu meðlimir hljómsveitarinnar saman á svið í fyrsta sinn í langan tíma, auk flestra annarra sem komið hafa við sögu sveitarinnar á þessum 30 árum, eins og: Ingólfur Sigurðsson, Hafþór Guðmundsson, Jakob Smári Magnússon, Eyjólfur Jóhannsson, Hrafn Thoroddsen, Stefán Már Magnússon, Atli Örvarsson og auðvitað sjálfur Helgi Björnsson. Auk þessa frábæra gengis munu góðir gestir líta við.
Það var í Hlaðvarpanum í Kvosinni í þykkri snjókomu, þann 25. mars 1987 að hljómsveitin Síðan Skein Sól hélt sína fyrstu tónleika. Í framhaldinu upphófst stíft tónleikahald í félagsmiðstöðvum, skólum og á tónleikastöðum borgarinnar. Síðan fóru þeir í hringferð um landið í svokallaðan kassatúr 1989, þar sem þeir léku að mestu órafmagnað. Þá tóku við ár með mikilli spilamennsku bæði á böllum og tónleikum og útgáfu mikils fjölda af lögum sem þjóðin hefur tekið ástfóstri við, eins og lögin: Blautar varir, Geta pabbar ekki grátið, Ég verð að fá að skjóta þig, Halló ég elska þig, Ég stend á skýi og Vertu þú sjálfur, svo einhver dæmi séu tekin. Ófá danssporin voru stigin undir þessum lögum á vestfirskum dansgólfum er sveitin spilaði reglulega á heimaslóðum framvarðarins Helga og nokkuð víst að einhverjir geri sér ferð suður yfir heiðar til að rifa upp gamlar minningar undir tali og tónum Síðan skein sólar.
annska@bb.is