Saurgerlamengun: Trassaskapur eða ófullnægjandi innra eftirlit

Ekki þarf lengur að sjóða vatn á Hólmavík.

Á síðasta fundi Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða var tekin fyrir fyrirspurn frá eftirlitsstofnun EFTA um saurgerlamengun sem upp kom á Flateyri á síðasta ári og í kjölfarið sköpuðust umræður um vatnsmál á Vestfjörðum. Heilbrigðiseftirlitið hefur tekið saman niðurstöður sýnatöku fyrir árin 2013-­2016, en nokkur tilvik hafa komið upp síðastliðin ár þar sem saurmengun hefur mælst í neysluvatni á Vestfjörðum og segir Heilbrigðiseftirlitið að í flestum tilfella hafi verið um trassaskap að ræða eða að  innra eftirlit vatnsveitu ekki verið í lagi.

Vatnsveitur eru stærstu matvælafyrirtæki hvers byggðarlags og undirstaða þess að hægt sé að starfrækja önnur matvælafyrirtæki. Vatnsveitur er ábyrgar fyrir heilnæmi neysluvatns og eru þær eftirlits- og starfsleyfisskyldar og þurfa að uppfylla reglugerð um neysluvatn sem byggir á Evróputilskipun um gæði ef hún þjónar fleirum en 50 manns, eða 20 heimilum/sumarbústöðum eða matvælafyrirtækjum. Vatnsveitum er skylt að hafa virkt innra eftirlit til að tryggja neytendum öruggt neysluvatn og er vatnsveitan í raun ábyrg fyrir því að afhenda ógallaða vöru líkt og önnur matvælafyrirtæki.

Reglubundið opinbert eftirlit með vatnsveitum er á hendi heilbrigðisnefnda sveitafélaga. Í reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn er kveðið á um lágmarkstíðni sýnatöku og er tekið mið af þeim íbúafjölda sem veitan þjónar. Neysluvatn í þéttbýli á Íslandi á að vera 100% í lagi, og er það í langflestum byggðarlögum að sögn Antons Helgasonar heilbrigðisfulltrúa. Veitur sem þjóna 93% af íbúum landsins eru gæðin fullnægjandi í 99.9% tilvika sem er eins og best gerist í Evrópu og segir Anton því flokkast sem trassaskapur eða innra eftirliti er ekki sinnt nægjanlega vel ef fram koma sýni í reglubundnu eftirliti sem ekki standast kröfur.

Flestar veitur eru með niðurgrafna brunna, en í miklum leysingum og vatnsveðri getur yfirborðsvatn komist að og mengað.  Til að koma í veg fyrir að það hafi áhrif á gæði neysluvatnsins er vatnið geislað með UV geislum, við það drepast bakteríur en hefur að öðru leiti ekki áhrif á vatnið.  UV geislun er svipuð ljósaperum.  Perurnar endast bara ákveðinn tíma sem framleiðandi gefur upp og það þarf að fylgjast með að það sé kveikt á tækjum.  Tækin eru eins og önnur rafmagnstæki viðkvæm fyrir rafmagnstruflunum og geta slegið út.  Því þarf að fylgjast með að tækin séu virk og  varaperur á staðnum ef perurnar gefa sig. Mjög víða hafa verið sett upp geislunartæki þar sem neysluvatn er lýst með útfjólubláu ljósi. Í flestum tilfellum dugar það sem sóttvörn. Anton segir þó að þurfi að vera kveikt á tækjunum til að þau virki og hafa þurfi í huga að perurnar hafi einungis ákveðin líftíma, þannig að ef þessi lausn er notuð þá þarf að fylgjast vel með.

Í öllum stærri vatnsveitum á Vestfjörðum er sjaldgæft að sýni standist ekki kröfur. Í minni vatnsveitum, sér í lagi þeim sem ferðaþjónustufyrirtæki hafa yfir að ráða er oft mikilla úrbóta þörf. Niðurstöður sýnatöku áranna 2013 – 2016 hjá vatnsveitum þéttbýlisstaða sýna að 93% þeirra stóðust kröfur. Hjá kúabændum  eru 80% sýna í lagi og  hjá ferðaþjónustuaðilum í dreifbýli  þ.e. gisting og tjaldstæði stóðust einungis 71% sýna kröfur með tilliti til E.coli. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hefur sent öllum vatnsveitum á svæðinu lokafrest til að koma á innra eftirliti með úrbótalista þar sem meðal annars þarf að skrá eftirlit með vatnsverndarsvæði, peruskipti í búnaði, viðhald og eftirlit með búnaði og hafa þær vatnsveitur sem eitthvað kann upp á að vanta hjá þrjá mánuði til úrbóta.

annska@bb.is

DEILA