Raforka hækkað langt umfram vísitölu

Raforkuverð hækkaði um 12,6- 22,63%, mismunandi mikið eftir hinum ýmsu seljendum raforku, frá því í janúar 2013 til janúar 2017. Þetta er samkvæmt upplýsingum sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum (SSKS) fékk frá Orkusetrinu og var greint frá í Morgunblaðinu á laugardag. Raforkuverð hjá Orkubúi Vestfjarða hækkaði um 21 prósent á tímabilinu, eða úr 4,70 kr. kílóvattsstund í 5,70 kr.

Stjórn SSKS lýsti yfir miklum vonbrigðum með hækkanirnar og sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu erindi vegna þeirra. Þar var bent á að þessi hækkun raforku væri langt umfram hækkun á neysluverðsvísitölu sem hækkaði um 8,85% á sama tímabili. „Svo virðist sem sölufyrirtækin hafi nýtt sér þá staðreynd að hækkun hefur orðið á niðurgreiðslum til íbúa á köldum svæðum og hækkað gjaldskrár sínar óhóflega sem kemur harkalega niður á íbúum sem búa á þeim svæðum,“ segir m.a. í bréfi stjórnar SSKS til ráðuneytisins.

 

Stjórn SSKS hefur farið þess á leit við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að hún beiti sér í málinu. Hún var minnt á þá stefnu sambandsins að það „skuli beita sér fyrir því að jafna raforkukostnað bæði hjá fyrirtækjum og íbúum, m.a. með jöfnun flutningskostnaðar á raforku og hærri greiðslum til jöfnunar á húshitunarkostnaði.“

smari@bb.is

 

 

DEILA