Nýskráningar einkahlutafélaga í desember voru 200 en á síðasta ári fjölgaði nýskráningum einkahlutafélaga um 13% milli ára. Alls voru 2.666 ný einkahlutafélög skráð á árinu, borið saman við 2.368 árið 2015. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, þar sem þeim fjölgaði úr 176 í 272, eða um 55% frá fyrra ári. Einnig má nefna að nýskráningum í flutningum og geymslu fjölgaði árið 2016 úr 46 í 60 eða um 30%. Nýskráningum fækkaði í rekstri gististaða og veitingarekstri um 5% frá fyrra ári, þ.e. úr 169 í 161.
Í desember 2016 voru 29 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotabeiðnum fyrirtækja árið 2016 fjölgaði um 75% frá fyrra ári. Alls voru 1.027 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á árinu, borið saman við 588 árið 2015. Á vef Hagstofunnar segir um fjölgun gjaldþrota: „Í þessu samhengi má nefna að vegna verkfalls lögfræðinga sem stóð frá apríl til desember 2015 má vera að einhver hluti þeirra gjaldþrota sem skráð voru árið 2016 hafi í raun átt sér stað 2015, en erfitt er að leggja mat á hversu stór partur af aukningunni milli ára liggur í þeirri skýringu.“
smari@bb.is