Matvælastofnun hefur borist tilkynning frá hraðviðvörunarkerfi Evrópu um matvæli og fóður (RASFF) um nóróveirumengun í frosnum jarðarberjum frá COOP. Innflytjandi jarðarberjanna, Samkaup hf, hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja innkallað jarðarberin af markaði, þau koma í 400gr pokum og eru með best fyrir merkinguna: 06/04/2018, strikamerki: 7340011459514.
Matvælastofnun varar við neyslu vörunnar og ráðleggur neytendum að farga vörunni eða skila henni til þeirrar verslunar sem hún var keypt í. Viðvörunin varðar eingöngu ofangreinda vöru. Nóróveirur valda sýkingu í smágirni. Sýkingin leiðir til kviðverkja, ógleði, uppkasta og niðurgangs og eru veirurnar í miklu magni, bæði í niðurgangi og uppköstum. Veirurnar eru mjög smitandi því að örfáar veirur geta valdið sýkingu.
Nánari upplýsingar um vöruna veitir Björn Björnsson, innkaupastjóri hjá Samkaupum.