Þrátt fyrir að sjómenn hafi samþykkt kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og 10 vikna verkfalli sé lokið eru mörg deiluefni óútkljáð. „Samningurinn er til desember 2019 og er rammaður inn með ítarlegum bókunum um hvernig við munum vinna úr okkar ágreiningsefnum,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Sem dæmi nefnir hann mönnunarmál flotans, bátaflokkanir og ráðningarsamninga. „Það var ekki endanleg lending í olíviðmiðinu í samningunum og olían er enn óútkljáð mál sem verður unnið í á samningstímanum. Þessi vinna hefst strax og verður undir verkstjórn sáttasemjara,“ segir Finnbogi.
Finnbogi gagnrýnir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútgsráðherra fyrir hennar aðkomu að deilunni. „Það sem hún bauð var að hluti sjómanna fengu skattaívilnanir af fæðispeningum en þeir sem róa skemur en 48 tíma áttu ekki að fá neitt. Þetta var skammarlegt tilboð og hleypti illu blóði í menn. Hennar framganga var henni til minnkunar ekki síst þegar maður heyrir hana í fjölmiðlum óska viðsemjendum til hamingju með samninginn þegar okkur var öllum ljóst að hún ætlaði að setja lög á okkur.“
Afar skammur tími var til kynningar og atkvæðagreiðslu um samninginn. „Í þessu ljósi verður að taka tillit til að við vorum með ítarlegan kynningarfund um stöðuna þann 20. janúar og svo hefur farið fram mikil umræða á samfélagsmiðlum eftir því sam samningaviðræðum hefur undið fram þannig að öllum var ljóst um hvað þessi samningur snýst.“
Hann gagnrýnir útgerðarmenn fyrir að boða menn til skips áður en atkvæðagreiðslu lauk. „Menn voru hundóánægðir með þetta. Það sýnir virðingarleysi útgerðarmanna í garð sjómanna að boða þá til skips strax í gærkvöldi, áður en niðurstöður voru ljósar. Menn fóru ekki í þennan hasar á togurunum hér á Ísafirði og þeir eru að fara á sjó í dag,“ segir Finnbogi.