Mjög viðkvæm staða

Finnbogi Sveinbjörnsson

Mjög viðkvæm staða er í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna að sögn Finnboga Sveinbjörnssonar, formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga. „Menn bjuggust við samningi í nótt og að það kæmi gott útspil frá ríkisvaldinu en því miður varð ekki af því. Ef það hefur einhvern tímann verið þörf á aðkomu ríkisstjórnarinnar þá er það nú,“ segir Finnbogi. Ekki hefur verið boðað til formlegra samningafunda að sögn Finnboga.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði til á fundi með deilendum að farið verði í greiningu á fæðis- og dagpeningum sjómanna, en það eitt og sér leysir ekki deiluna eftir því sem kemur fram hjá sjómannaforystunni.

Sjómannasambandið sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem fram kemur að leiðréttingar sé þörf á ójafnræði í skattalegri meðferð á dagpeningum. Sjómenn telji mikilvægt að úr þessu verði bætt. Þetta sé réttlætismál og hafi því veruleg áhrif í þeim kjaraviðræðum sem nú standi yfir.

smari@bb.is

DEILA