Alls eru 61,5 prósent Íslendinga mótfallnir nýju áfengisfrumvarpi sem felur í sér að heimilt verður að selja áfengi í verslunum frá og með næstu áramótum. Einungis 22,8 prósent eru hlynntir þeirri ráðagerð en 15,7 prósent eru hvorki hlynntir eða mótfallnir ráðagerðinni. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi daganna 9. til 14. febrúar síðastliðinn og greint er frá í Kjarnanum. Íbúar á landsbyggðinni eru marktækt andsnúnari frumvarpinu en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Nokkur munur er á afstöðu Íslendinga gagnvart frumvarpinu eftir aldri. Yngri aldurshópar eru almennt hlynntari því að áfengi verði selt í verslunum en eldri aldurshópar. Þá eru karlar mun hlynntari því að frumvarpið verði að lögum en konur.
Níu þingmenn úr fjórum flokkum lögðu fram frumvarpið. Verði það að lögum verður einkaleyfi ÁTVR á áfengissölu afnumið frá og með næstu áramótum, sala á því heimiluð í sérverslunum, í sérrýmum innan verslana eða yfir búðarborð, áfengisauglýsingar innlendra aðila heimilaðar og leyfilegt verður að auglýsa það í innlendum fjölmiðlum.
Þingmennirnir sem leggja frumvarpið fram koma úr Sjálfstæðisflokki, Viðreisn, Bjartri framtíð og Pírötum. Þeir eru Teitur Björn Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir úr Sjálfstæðisflokki, Pawel Bartoszek úr Viðreisn, Nichole Leigh Mosty úr Bjartri framtíð og Píratarnir Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson.
smari@bb.is