Kári leggur umbúðalausum viðskiptum lið

Fisksalinn Kári

Fisksalinn Kári Jóhannsson í Fiskbúð Sjávarfangs á Ísafirði hefur lagt baráttunni gegn umbúðum lið og býður nú viðskiptavinum verslunarinnar að koma með eigin umbúðir er þau versla úr því stórgóða úrvali sem finna má í fiskborðinu. „Með þessu er hann meðal annars að leggja verkefninu Plastpokalausir Vestfirðir lið og einnig að vera ábyrgt fyrirtæki á Vestfjörðum.“ Segir Lína Björg Tryggvadóttir, starfsmaður Fjórðungssambands Vestfirðinga sem hefur umsjón með verkefninu Plastpokalausir Vestfirðir.

Kári var að vanda brattur er blaðamaður Bæjarins besta náði tali af honum á dögunum. Hann segir viðskiptavini sína í auknum mæli vera meðvitaða um umbúðanotkun og komi gjarnan með umbúðir að heiman með sér og tæknin í dag geri það kleift að lítið mál sé að vigta fiskinn í hvaða umbúðir sem er.

Hann segir að það hafi verið auðsótt mál að leggja verkefninu lið. „Málið er ekki hvað þú sérð hvernig þú horfir á það. Þegar ég fæ fiskinn fæ ég hann í fjölnota körum og því ekki að framlengja það ferli með því að nota fjölnota umbúðir áfram.“ Segir Kári sem hyggst bjóða fólki upp á í framtíðinni að geta fengið hjá honum fjölnota umbúðir undir fiskinn, en eitthvað er þó um að komið sé með þær umbúðir sem hann nú notar til áfyllingar.

„Fólk er byrjað að vera mjög meðvitað um náttúruna og samfélagið og það er gaman að sjá. Líkt og með plast í náttúrunni. Það er fátt ömurlegra en að vera úti í náttúrunni og sjá plastpoka fjúka framhjá.“ Segir Kári og bendir á að upphafið liggi í því að muna eftir boxunum – svipað og margir hafa verið að þjálfa sig í er kemur að plastpokanotkun.

Kári lætur vel af sér þrátt fyrir verkfall sjómanna: Það er nægur fiskur hér því þeir róa svo grimmt í Víkinni og þar sem ég reyni að selja alltaf línufisk þá er þetta í lagi.“ Hann segir vöruúrvalið þessa dagana benda til þeirra breytinga sem eru að verða í umhverfi okkar: „Ég er til dæmis kominn með got og lifur og er það alveg tveimur vikum á undan áætlun, en það sem er kannski skrýtnara er að rauðmagi er farinn að sjást sem yfirleitt er ekki fyrr en í maí. Við sjáum líka vel í kringum okkur breytingarnar, það má sjá hversu heitur sjórinn er orðinn á því hversu sjaldan firðina leggur.“

Kári er greinilega vel á nótunum með umhverfisþætti rekstursins og ábyrgð í þeim efnum og ekki síður er hann meðvitaður um að þjónusta vel viðskiptavinir sína: „Mitt starf er að eltast við fiskinn um allt land, svo til staðar sé fjölbreytt úrval þegar fólk þarf góðan, ferskan og hollan mat – í fjölnota umbúðum.“

annska@bb.is

DEILA