Nemendur á húsasmíðabraut Menntaskólans á Ísafirði héldu í síðustu viku reisugildi vegna byggingar sem þeir hafa nýlokið við að slá upp á lóð skólans. Er það 21m2 hús sem mun Fossavatnsgangan hefur fest kaup á og mun það þjóna hlutverki brautarskýlis og verður því komið fyrir á Botnsheiði þar sem það verður aðstaða fyrir starfsfólk við drykkjarstöð að sögn Þrastar Jóhannessonar kennara við húsasmíðabraut MÍ. Húsið var teiknað af Tækniþjónustu Vestfjarða og hafa Vestfirskir verktakar yfirumsjón með verkinu. Vonir standa til að verkinu verði lokið fyrir páska, þá verður búið að klára húsið að utan, setja hurðir og glugga ásamt því sem það verður klætt með bárujárni.
Þröstur ásamt Fannari Þór Þorfinnssyni kenna við húsasmíðabraut skólans. Á fjórðu önn smíða nemendur á húsasmíðabraut hús og er þetta það fjórða sem smíðað er frá því er húsasmíðabrautin tók til starfa árið 2005. Fyrsta húsið reis tveimur árum síðar 50m2 sumarbústaður sem nú er í Arnardal. Tveimur árum síðar var byggt samskonar hús sem selt var í Skagafjörð. Árið 2010 var byggt 24m2 hús sem Ferðafélag Íslands keypti og setti upp í Nýjadal.
Sex nemendur taka þátt í húsbyggingunni, en nemendum við brautina hefur fækkað mikið frá því er hún fyrst tók til starfa er 10-12 nemendur hófu nám að hausti fyrstu árin. Í haust sóttist enginn nemandi eftir að komast á húsasmíðabraut. Þröstur segir breytinguna ansi mikla á skömmum tíma, en þróunin hafi tekið dýfu niður á við eftir hrun. Hann segir jafnframt mikla möguleika felast í því að hafa þau réttindi sem námsbrautin veitir. Það sé hægt um vik námslega séð að taka viðbótarnám sem skili nemendum einnig stúdentsprófi, en hann segir þróunina augljóslega vera í þá átt að sem flestir ljúki námi sem stúdentar. Það rímar fullkomlega við umræðu undanfarinna ára þar sem allt bendir til að verknám eigi undir verulegt högg að sækja. Þröstur segir að hér á landi vanti alltaf smiði og einnig ef fólk hyggur á vinnu á Norðurlöndum, þá sé á flestum stöðum þessara réttinda krafist. Þröstur segir marga sem útskrifast hafa af brautinni haldið áfram námi í iðn- og tæknifræði.