Húfur gegn einelti í þriðja sinn

Nemendur í 1.bekk Grunnskóla Bolungarvíkur flottir með nýju húfurnar

Í Grunnskóla Bolungarvíkur hafa nemendur í 1. bekk undanfarin ár fengið afhentar húfur með áletruninni „gegn einelti“ og í gær var húfudagurinn svo haldinn hátíðlegur við skólann þar sem hápunkturinn var er hver og einn nemandi fékk afhenta sína eigin heimaprjónuðu húfu gegn einelti.  Verkefnið má rekja til Ragnheiðar Ragnarsdóttur sem fyrir þremur árum átti barn í fyrsta bekk og tók hún sig til og prjónaði húfur á alla nemendurna í bekknum, með það í huga að hefðu börnin áletrunina „gegn einelti“ stöðugt fyrir augunum myndi það vera góð áminning um málstaðinn að koma vel fram hvert við annað.

Á síðasta ári og í vetur hafa svo íbúar í Bolungarvík tekið við keflinu og prjónað húfurnar og er það vilji skólayfirvalda að halda þessu góða verkefni áfram. Í vetur hafa nemendur í 1. bekk G.B. unnið fjölbreytt verkefni tengd vináttu, virðingu, hrósi og umburðarlyndi.

annska@bb.is

DEILA