Helgi í lífi íþróttaiðkenda á Vestfjörðum

Það var mikið um að vera hjá meistaraflokkum Vestra í blaki þessa helgina. Karlarnir kepptu bikarleik við KA-ö á Akureyri í þriðju umferð Kjörísbikarsins, en sigurvegarinn tryggir sér sæti í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar. Áður höfðu Vestramenn unnið Hrunamenn á Flúðum í 2. umferð bikarkeppninnar, en þar sem Vestri er í 1. deild sat liðið hjá í fyrstu umferðinni.

Kvennaliðið átti einnig tvo leiki í Reykjavík í 1. deildinni, við Stjörnuna B á laugardeginum og ÍK á sunnudeginum.

Búið var að skipuleggja helgina í þaula þar sem liðin deila sama þjálfaranum, Tihomir Paunovski, sem einnig er uppspilari karlaliðsins. KA-ö voru liðlegir og búnir að samþykkja að spila leikinn kl. 20 á laugardagskvöldinu svo Tihomir gæti flogið norður eftir leik hjá kvennaliðinu á laugardeginum og suður aftur með fyrstu vél á sunnudegi.  Kvennaliðið keyrði suður á tveimur bílum á föstudag, ásamt þjálfaranum. Yngsti leikmaður liðsins átti hinsvegar að skemmta á þorrablóti grunnskólans á Suðureyri á föstudagskvöldinu, og keyrði mamman með stelpuna til Reykjavíkur eldsnemma á laugardagsmorgni í tæka tíð fyrir leikinn sem hófst kl. 15.

Leikurinn á laugardeginum tapaðist á móti sterku liði Stjörnunnar 0-3, en margt var gott hjá Vestrastelpum.  Það vantaði bara herslumuninn.  Eftir leikinn var meiningin að skutla þjálfaranum beint út á flugvöll en þá kom tilkynning um að flug til Akureyrar hafði verið fellt niður vegna veðurs. Nú var úr vöndu að ráða og eftir að hafa fengið innanbúðarupplýsingar frá flugveðurfræðingi hjá Veðurstofunni var ákveðið að treysta ekki heldur á flug snemma morguninn eftir.  Aftur voru KA-ö liðlegir og gátu fært leikinn til sunnudagsmorguns kl. 10.  Leikmaður kvennaliðsins (og formaður blakdeildarinnar) skutlaði þjálfaranum norður á bóginn á laugardagskvöldinu, en leikmaður karlaliðsins (og fyrrverandi formaður blakdeildarinnar) kom keyrandi á móti frá Akureyri og hafði þjálfarinn bílaskipti einhversstaðar nálægt Víðidalnum.

Eftir allt þetta vesen kom að sjálfsögðu ekki annað til greina en að vinna leikinn – en tæpt var það.  Vestramenn unnu tvær fyrstu hrinurnar nokkuð sannfærandi, en KA-menn komu sterkir til baka og unnu tvær þær næstu. Vestri hafði síðan betur í úrslitahrinunni og eru þar með komnir í átta liða úrslitin. Dregið verður í 8 liða úrslitin 24. febrúar og mun þá Vestri væntanlega fá heimaleik á móti úrvalsdeildarliði, eða keppa á móti Hamri sem er líka í 1. deild. KA-ö voru öðlingar heim að sækja og buðu upp á góðmeti úr bakaríi eftir leikinn.

Kvennaliðið spilaði án Tihomir þjálfara á móti ÍK á sunnudeginum, en hjónin Sólveig og Guðni voru skráð sem þjálfari og aðstoðarþjálfari í leiknum og stýrðu liðinu til sigurs 3-0. Fyrstu tvær hrinurnar unnust með minnsta mögulega mun en eftir það voru ungu stelpurnar í Vestra komnar í stuð og gáfu engin grið í þriðju hrinunni sem fór 25-7.

Það var Harpa Grímsdóttir yfirblakari Ísafjarðarbæjar sem lýsti þessari annasömu helgi og samkvæmt útreikningum bb hafa blakarar ekið rúmlega 4600 km þessa helgina og í vinning voru tveir sætir sigrar.

bryndis@bb.is

DEILA