Gengið veldur þungum búsifjum hjá sjómönnum

Árshlutur háseta um borð í Barða NK, sem Síldarvinnslan hf. gerir út, mun lækka um fimm milljónir á þessu ári miðað við 2015, haldist gengi íslensku krónunnar óbreytt. Þetta kemur fram í tölum sem Síldarvinnslan hefur birt á facebooksíðu sinni. Þar eru áhrif gengisbreytinga síðustu missera sett í samhengi við rekstur frystitogarans fyrrnefnda. Barðinn landaði 2.957 tonnum af frystum afurðum árið 2015 að verðmæti 1.653 millj. kr. Að teknu tilliti til gengisþróunar, sem er mismunandi eftir tegundum og þeim mörkuðum sem þær seljast á, mun sami afli skila 1.336 milljónum á gengi dagsins og jafngildir það lækkun um 19,2%. Sé einnig tekið tillit til lækkunar afurðaverðs nemur heildarverðmæti aflans 1.209 milljónum og jafngildir það lækkun upp á 26,84% í íslenskum krónum.

Bendir Síldarvinnslan á að þessi þróun hafi verulega neikvæð áhrif á útgerð skipsins en að hið sama megi segja um skiptahlut skipverja. Þannig hafi árshlutur háseta numið 18,8 milljónum árið 2015 en verði að öllu óbreyttu 13,8 milljónir á þessu ári.

smari@bb.is

DEILA