Dagur kvenfélagskonunnar er í dag 1.febrúar, en þann dag árið 1930 var Kvenfélagasamband Íslands stofnað og var ætlun þess að vera samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu en þau voru þá þegar orðin fjölmörg. Fyrsta kvenfélagið, Kvenfélag Rípurhrepps, var stofnað árið 1869. Með störfum sínum innan kvenfélaganna má segja að konur hafi tekið völdin í sínar hendur talsvert áður en þær fengu aðgengi að stjórnkerfinu með kjörgengi og kosningarétti. Frá því er Kvenfélag Rípurhrepps var stofnað hafa konur alls staðar á landinu stofnað hundruð kvenfélaga með það að markmiði að bæta samfélagið. Sér í lagi hafa kvenfélagskonur í gegnum tíðina verið öflugir bakhjarlar samfélaga sinna og þá sér lagi í málefnum barna og kvenna.
Mörgu væri á annan hátt farið ef konur hefðu ekki tekið höndum saman og fundið þann samtakamátt sem skapast er margir leggja saman hönd á plóg. Störf kvenfélagskvenna eru og hafa verið samfélaginu öllu afar mikilvæg þó ekki hafi þau alltaf farið hátt eða mikið farið fyrir þeim í fjölmiðlum. Árið 2010 var ákveðið af Kvenfélagasambandi Íslands að gera kvenfélagskonunni og þeim störfum sem hún vinnur hátt undir höfði og var því ákveðið að útnefna stofndag sambandsins „Dag kvenfélagskonunnar.“ Hvetur Kvenfélagasambandið landsmenn alla til að heiðra kvenfélagskonur þennan dag.
Kvenfélögin í landinu telja nú um 5000 meðlimi og eru störf félaganna margþætt. Starfandi eru 18 héraðssambönd um land allt, þar á meðal Samband vestfirskra kvenna þar sem starfa um 320 konur i 13 félögum. Fjölmörg kvenfélög gera sér glaðan dag og munu kvenfélagskonur á norðanverðum Vestfjörðum koma saman á Hótel Ísafirði í kvöld og fagna deginum.