Bandarískir háskólanemar koma til Ísafjarðar

SIT-nemarnir við komuna á Ísafjörð í gærmorgun ásamt Jennifer Smith fagstjóra. Mynd: uw.is

Sautján bandarískir háskólanemar sem eru vettvangsnámi á vegum School for International Training (SIT) komu til Ísafjarðar í gærmorgun þar sem þeir munu dvelja í nokkrar vikur í vettvangsnámi í loftslagsfræðum. Frá komu nemanna er sagt á vef Háskólaseturs Vestfjarða sem hefur undanfarin tíu sumur átt í farsælu samstarfi við vettvangsskóla SIT en skólinn er staðsettur í Vermont í Bandaríkjunum.  Í vettvangsnáminu hér á landi hefur sumarnámið snúist um endurnýjanlega orkugjafa og hafa hóparnir sem komið hafa á jafnan dvalið á Ísafirði í nokkrar vikur og stundað nám í Háskólasetrinu, ásamt því sem þau hafa dvalið í Reykjavík. Nemendur skólans hafa fengið tækifæri til að kynnast fólki og fjölskyldulífi á svæðinu nokkuð vel þar sem dvöl í heimahúsum hefur verið í boði frá því sumarið 2012 með góðum árangri.

Síðastliðið haust hleypti SIT af stokkunum nýrri námsleið í samstarfi við Háskólasetrið og mætti fyrsti hópurinn hingað til leiks í september 2016. Nemendurnir sem komu til Ísafjarðar í gær eru því annar hópurinn sem stundar þessa námsleið hér á landi. Námið er 15 vikur eða ein önn og er í boði bæði vor og haust. Nemendurnir koma úr hinum ýmsu skólum víðsvegar í Bandaríkjunum. Viðfangsefni vettvangsskólans eru loftslagsmál á Norðurslóðum og ferðast nemendur víða um Ísland en einnig er farið til Grænlands. Á Ísafirði dveljast nemendurnir í a.m.k fjórar fjórar vikur. Líkt og nemendur sumarskóla SIT fá þessir nemendur tækifæri til að kynnast fólki á svæðinu náið þar sem þeim er boðið að búa hjá fjölskyldum hluta af tímanum, sem gefur þeim færi á að kynnast lífinu á Ísafirði á persónulegan hátt.

Með tilkomu vettvangsskólans í haust urðu til tvö ný rannsóknar- og kennslutengd stöðugildi á Vestfjörðum. Jennifer Smith sem útskrifaðist úr haf- og strandsvæðastjórnun Háskólaseturs árið 2014, var nýverið ráðin fagstjóri skólans en hún gegndi stöðu aðstoðarmanns fagstjóra síðastliðið haust. Akademískur ráðgjafi á þessari önn er Daniel Govoni, doktorsnemi, en hann og Jennifer eru bæði búsett á Ísafirði.

annska@bb.is

DEILA