Komið hefur í ljós að gögn um fjölda lögskráningardaga sem fjármálaráðuneytið lagði til grundvallar við útreikning á skatti af fæðispeningum sjómanna eru ekki rétt. Fjöldi lögskráningardaga sé umtalsvert minni en gert var ráð fyrir. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins. Ekki er upplýst þar hver raunverulegur fjöldi lögskráningardaga sé og tekjutap ríkissjóðs ekki endurreiknað Fyrri yfirlýsing er heldur ekki dregin til baka þótt ráðuneytið gangist við að forsendur útreikninganna séu ekki réttar. Í fyrri yfirlýsingu kom fram að tekjutap ríkissjóðs yrði 730 milljónir og tap sveitarfélaga 330 milljónir verði fæðispeningar sjómanna skattfrjálsir.
Athugasemd ráðuneytisins fer hér á eftir:
„Vegna tilkynningar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í gær í tengslum við skattlagningu fæðispeninga og dagpeninga tekur ráðuneytið fram: Í tilkynningunni var miðað við að heildarkostnaður útgerðarinnar vegna greiðslu fæðispeninga sjómanna á fiskiskipum væri um 2,3 milljarðar króna á ári samkvæmt gildandi kjarasamningum og var miðað við að fjöldi lögskráningardaga sjómanna væri um 1,5-1,6 milljónir daga á ári. Var þar stuðst við gögn sem Sjómannasambandið lét ráðuneytinu í té á síðastliðnu ári. Komið hefur í ljós að þau eru ekki rétt, heldur er fjöldi lögskráningardaga umtalsvert minni.“
smari@bb.is