Á föstudaginn fékk lögreglan á Vestfjörðum tilkynningu um að verið væri að brenna sinu í Mjóafirði, skammt frá brúnni við Hrútey. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var engan að finna á svæðinu en greinilegt að sina hafði verið brennd á allstóru svæði í Hrútey og nánasta nágrenni. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni. Lögreglan minnir á reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum Í reglugerðinni kemur fram að óheimilt sé að brenna sinu en þó sé eigendum jarða, á lögbýlum þar sem landbúnaður er stundaður, heimilt að brenna sinu en þó aðeins með skriflegu leyfi sýslumanns. Samkvæmt slíku leyfi má einungis brenna sinu á tímabilinu frá 1. apríl til 1. maí ár hvert. Aðeins í undantekningartilvikum má brenna sinu utan þess tímabils.
Alls voru 15 ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Ökumennirnir voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi, Strandasýslu og víðar í umdæminu. Sá sem hraðast ók var mældur á 141 km. hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.
Tilkynnt var um eitt umferðarslys. Það var í Staðardal í Strandasýslu um miðjan dag í gær, sunnudaginn 12. febrúar. En þá valt jeppabifreið á veginum. Auk ökumanns voru fjórir farþegar í bifreiðinni. Meiðsl þeirra urðu minniháttar. Talið er að ökumaður hafi verið þreyttur og svefndrungi hafi orsakað atvikið. Ökumenn eru hvattir til þess að leggja ekki af stað ef þreyta er annars vegar og ef hún gerir vart við sig að stöðva og hvílast áður en haldið er áfram.
Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Sá var stöðvaður í Önundarfirði aðfaranótt sunnudagsins 12. febrúar.
smari@bb.is