Hagstofa Íslands spáir 4,3% hagvexti árið 2017 og um 2,5–3,0% árlega árin 2018–2022. Talið er að landsframleiðsla hafi aukist um 5,9% árið 2016 og að fjárfesting hafi aukist um 22,7% í fyrra. Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út endurskoðaða þjóðhagsspá að vetri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær yfir árin 2016 til 2022.
„Mikil umsvif eru í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir en neysla, fjárfesting og utanríkisverslun hafa verið í örum vexti undanfarin misseri. Nýjustu niðurstöður þjóðhagsreikninga sem spáin byggist á ná til þriðja ársfjórðungs 2016,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.
Einkaneysla er talin hafa aukist um 7% árið 2016 en gert er ráð fyrir að hún aukist um 5,9% árið 2017, 3,9% árið 2018 og um 2,5–2,9% á ári seinni hluta spátímans. Reiknað er með að samneysluvöxtur verði áfram hóflegur eða sem nemur 1,5% árlega.
„Öll skilyrði hafa ýtt undir aukningu neyslu undanfarin misseri, kaupmáttur launa og ráðstöfunartekjur hafa aukist mikið og gengi krónunnar styrkst, olíuverð verið lágt og ýmis aðflutningsgjöld verið afnumin. Því er spáð að þessi þróun verði svipuð á næstunni, að kaupmáttur aukist umtalsvert og hækkun ráðstöfunartekna veiti svigrúm fyrir enn meiri aukningu neyslu,“ segir í þjóðhagsspánni.
Fjárfesting er talin hafa aukist um 22,7% árið 2016 og spáð er að hún aukist um 12,6% árið 2017 en úr henni dragi eftir það. Gert er ráð fyrir talsverðri aukningu íbúðafjárfestingar og opinberrar fjárfestingar árin 2017 og 2018.
smari@bb.is