Ísfirðingurinn Albert Jónsson er einn af þeim keppendum sem Skíðasamband Íslands hefur valið á heimsmeistaramótið í norrænum greinum, sem fram fer í Lahti í Finnlandi og stendur frá 22.febrúar til 5.mars. Fyrir Íslands hönd voru auk Alberts valin: Elsa Guðrún Jónsdóttir, Brynjar Leó Kristinsson, Snorri Einarsson og Sævar Birgisson. Allir keppendur eru valdir til þátttöku í skíðagöngu en einnig er keppt í skíðastökki og norrænni tvíkeppni. Einungis hefur einn keppandi náð lágmörkum fyrir lengri vegalengdir en það er Snorri Einarsson. Hinir Íslendingarnir fara í undankeppnina þann 22.febrúar ef þau hafa ekki náð lágmarkinu fyrir þann tíma. Hópurinn mun dvelja í HM þorpinu frá 20.feb til 2.mars. Daginn eftir undankeppnina verður keppt í sprettgöngu og þann 25. febrúar í skiptigöngu og daginn þar á eftir í liðaspretti. 10km ganga kvenna verður þann 28.febrúar og mótinu lýkur á 15km göngu karla.
Albert Jónsson sem verður tvítugur á árinu er einn af sterkari gönguskíðamönnum Íslands og er hann í B-landsliði Íslands í greininni. Á síðasta ári varð hann bikarmeistari í hópi 18-20 ára og í öðru sæti í karlaflokki og kom hann til að mynda fyrstur Íslendinga í mark í 50km keppni Fossavatnsgöngunnar. Albert æfir hjá Skíðafélagi Ísfirðinga undir handleiðslu Steven Gromatka.