Ísafjarðarbær er með í athugun gerð samninga um ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í sveitarfélaginu er greint er frá á heimasíðu bæjarins. Ef af verður mun verkefnið verða unnið í áföngum, taka nokkur ár og felast í að koma að lágmarki á ljósleiðaratengingu á þá staði sem hverju sinni uppfylla skilyrði sem Fjarskiptasjóður setur um þátttöku sjóðsins á næstu árum.
Auglýsir sveitarfélagið eftir fjarskiptafélögum sem ætla sér, á markaðsforsendum, að bjóða ljósleiðaratengingar til lögheimila og annarra staða í dreifbýli í sveitarfélaginu næstu 3 ár. Sé fyrir hendi ásetningur um slíkt, óskar Ísafjarðarbær eftir upplýsingum um fyrirhugaða uppbyggingu en að öðrum kosti kemur til greina að styrkja, eða hafa milligöngu um styrkveitingu til verkefna sem uppfylla skilyrði. Óskað er eftir að þau fjarskiptafyrirtæki sem eru áhugasöm hafi samband við sveitarfélagið í gegnum netfangið taeknideild@isafjordur.is fyrir klukkan 12 miðvikudaginn 25. janúar 2017
Að því gefnu að ekki sé uppi ásetningur um ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í sveitarfélaginu á markaðsforsendum hyggst Ísafjarðarbær gera samning við hæfan aðila sem lýsir yfir áhuga á að hanna, byggja, reka og eiga ljósleiðarastreng ásamt því sem honum tilheyrir. Samningar munu fela í sér að Ísafjarðarbær veiti viðkomandi opinberan fjárhagslegan stuðning til verkefnisins eða einstakra áfanga þess. Ísafjarðarbær áskilur sér allan fyrirvara um hvort af einstökum áföngum verður þar sem ekki hefur verið fullmótuð stefna um verkefnið.