Viðurkenningar veittar fyrir bestu tuðrurnar

Arna Dalrós Guðjónsdóttir með pokann sem sigraði í einstaklingsflokki, Elísabet Finnbjörnsdóttir með þann sem var í öðru sæti, Örn Smári Gíslason með poka Fánasmiðjunnar og Lína Tryggvadóttir með poka Elínar Viktoríu Gray.

Arna Dalrós Guðjónsdóttir menntaskólanemi á Ísafirði bar sigur úr býtum í einstaklingskeppni hönnunarsamkeppninnar Tuðrunnar, en tilkynnt var um úrslitin í dag í sal Þróunarseturs Vestfjarða. Fánasmiðjan var hlutskörpust í fyrirtækjaflokki fyrir tuðru sem gerð er úr efni sem fellur til við fánagerð hjá fyrirtækinu. Það er Fjórðungssamband Vestfirðinga sem stóð fyrir keppninni og var markmið hennar að fá einstaklinga til að huga að hráefni sem væri hægt að nýta og félli til á heimaslóðum og færi í rusl eða flokkun. Nemendur á grunnskólaaldri voru sértaklega hvattir til að taka þátt í keppninni, en einnig einstaklingar og fyrirtæki og voru sendir póstar í alla skóla á Vestfjörðum til að vekja athygli á keppninni.
Það voru þær Tinna Gunnarsdóttir, prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og Ásthildur Björg Jónsdóttir, lektor í listkennsludeild LHÍ, sem völdu bestu tuðrurnar, en 28 tillögur bárust í keppnina og vöru kynjahlutföll hönnuðanna nokkuð jöfn. Veitt voru ein verðlaun í fyrirtækjaflokk og þrjú verðlaun í einstaklingsflokki.

Í umsögn dómnefndar um tösku Örnu Dalrósar segir: Hráefnið í töskunum er sterkt, endurnýtt og því í anda sjálfbærra áherslna. Pokinn er bæði þægilegur og handhægur og bæði hægt að nota hann með ól, baki eða halda á honum í hendi. Taskan er fallega útfærð og gefur sterka tengingu við Vestfirði með blýantsteikningu sem er framan á. Arna Dalrós hlaut að launum 25.000 krónur ásamt 20 tímum í ráðgjöf hjá AtVest við gerð viðskiptaáætlunar vegna hugmyndarinnar.
Arna Dalrós var að vonum glöð með sigurinn en pokinn, sem gerður er út skútusegli sem átti að henda, er hennar fyrsta hönnunarverk. Hún hóf nám við listnámsbraut Menntaskólans á Ísafirði síðastliðið haust og var pokahönnunin það fyrsta sem hún gerði í náminu að áeggjan Ástu Þórisdóttur kennara hennar.

Í umsögn dómnefndar um poka Fánasmiðjunnar, sem mörgum Vestfirðingum er að góðum kunnur var sagt: Taskan þeirra er unnin úr fánum sem falla frá eða eru ónýtir í framleiðslu. Hráefnið í töskunum er því endurnýtt og í anda sjálfbærra áherslna. Pokarnir eru bæði þægilegir og handhægir og geta borið þunga fjölbreytta vöru. Fánasmiðjan hlaut einnig 25.000 króna verðlaunafé og 20 tíma hjá Atvest.

Elísabet Finnbjörnsdóttir menntaskólanemi á Ísafirði var í öðru sæti í einstaklingskeppninni og hlaut hún 15.000 krónur í verðlaunafé fyrir. Um hennar poka var sagt: Hráefni töskunnar er endurnýtt og því í anda sjálfbærra áherslna með sterkri skírskotun tilhelstu atvinnugreinar á Vestfjörðum. Pokinn virkar bæði þægilegur og handhægur og getur borið þunga og fjölbreytta vöru.

Þriðju verðlaun 10.000 hlaut Elín Viktoría Gray grunnskólanemi á Hólmavík og þetta sagði dómnefndin: Hráefni töskunnar er endurnýtt úr gömlu tjaldi og því í anda sjálfbærra áherslna. Pokinn er bæði þægilegir og handhægur og getur borið þunga vöru. Pokinn er frekar lítill en skemmtilegur í laginu og líflegur. Hann bíður upp á fjölbreytt skilaboð sem gerir hvern poka sérstakan.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa undanfarin ár unnið að því að fá Vestfirði umhverfisvottaða. Árið 2016 fengu sveitarfélögin vottun fyrir starfsemi sína 2015 og er það ætlun þeirra að halda áfram með það verkefni. Verkefnið plastpokalausir Vestfirðir varð til sem hliðarverkefni út frá umhverfisvottuninni.

Arna Dalrós með töskuna sem bar sigur úr býtum í einstaklingsflokki
Örn Smári tekur við viðurkenningu fyrir hönd Fánasmiðjunnar
DEILA