Vestfirskt björgunarsveitarfólk lá ekki á liði sínu við þá miklu leit sem fram fór um helgina af Birnu Brjánsdóttur. Í leitina fóru rúmlega tuttugu leitarmenn, tveir aðgerðastjórar, tæki, drónar og tveir leitarhundar af svæði 7 sem til heyra björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum, einnig fór leitarfólk og tæki af svæði 6, sunnanverðum Vestfjörðum.
Leitin var umfangsmesta aðgerð sem framkvæmd hefur verið á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hin síðari ár. Jón Arnar Gestsson sem er svæðisstjóri svæðis 7 var í aðgerðastjórnunarteyminu og segir hann aðgerðina hafa verið þaul skipulagða og framkvæmdina snurðulausa. Segir hann að þrátt fyrir að svo viðamikil og fjölmenn leit hafi ekki verið framkvæmd áður sé heilmikil fagþekking til staðar sem hafi sýnt sig þar og sannað í beru verki.
Alls komu um 775 sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar að leitinni að Birnu, þar af voru 685 leitarmenn, 40 aðgerðastjórnendur og 50 frá slysavarnadeildum félagsins. Við leitina var notast við 11 hunda, dróna, fjórhjól og nánast allan bílaflota björgunarsveitanna. Leitarfólk úr 71 björgunarsveit víðsvegar að af landinu tók þátt í leitinni og slysavarnafólk úr fimm deildum félagsins.
Eftir að þyrla með sérhæfðu leitarfólki úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar fann lík Birnu við Selvogvita eftir hádegi í gær var leitarskipulagi breytt. Þá héldu yfir 300 björgunarsveitamenn leitarstörfum áfram, en áhersla var þá lögð á að finna vísbendingar sem tengst gætu málinu, svo sem ummerki eftir mannaferðir, jarðrask eða hluti sem tengst gert málinu. Skipulagðri leit hefur nú verið hætt.