Vestfirsk fiskneysla í Vísindaportinu

Í Vísindaporti vikunnar hjá Háskólasetri Vestfjarða mun Jennifer Smith, MSc í haf- og strandsvæðastjórnun, fjalla um rannsókn sína á vestfirskri fiskneyslu, aðgengi að fiski og gildi staðbundinna fiskiklasa. Staðbundnir matarklasar (ens. Local food networks (LFN)) eru að koma fram að nýju hvarvetna um hinn iðnvædda heim sem leið til að vinna gegn neikvæðum áhrifum hins iðnvædda matvælakverfis og til að auka sjálfsstjórn samfélaga yfir eigin matarforða. Í meistararannsókn sinni, sem unnin var 2013-2014, greindi Jennifer núverandi grenndarkerfi fyrir fisk sem eru þegar til staðar í vestfirskum sjávarbyggðum og kostina sem gætu fylgt því ef verslanir hefðu aukinn aðgang að þeim fiski sem kemur að landi á svæðinu.

Könnun á fiskneyslu var lögð fyrir á Patreksfirði og Ísafirði til að skoða m.a. fiskneyslu íbúa og hvort þeir væru almennt sáttir við aðgengi að ferskum fiski. Niðurstöðurnar benda til þess að svarendur kjósi frekar staðbundinn fisk og að menningarleg tengsl við fiskneyslu séu áfram sterk meðal íbúa. Fiskneyslan fellur að stóru leyti inn í gjafakerfi sem byggir á persónulegum tengslum við fiskiðnaðinn. Einstaklingar, sem skortir persónuleg tengsl og aðgengi að  sérhæfðari verslunum (t.a.m. fiskverslun eða fiskborði verslana), þurfa að treysta á að nálgast vörur frá stærri aðilum sem hannaðar eru fyrir alþjóðlega matvælakerfið.

Jennifer vann rannsókn sína undir handleiðslu Dr. Catherine Chambers, fagstjóra haf-og strandsvæðastjórnunar Háskólaseturs Vestfjarða, og saman skrifuðu þær grein um efnið sem birtist í bandaríska vísindatímaritinu Environment, Space, Place.

Jennifer Smith er bandarísk að uppruna.  Hún lauk meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða árið 2014 og hefur verið búsett á Ísafirði síðan. Hún starfar við SIT vettvangsskólann, School for International Training, ásamt því að vinna verkefni á vegum Háskólasetursins. Jennifer stefnir á doktorsnám og hefur augastað á rannsóknum á félagshagsfræðilegum áhrifum fiskeldis á íslensk samfélög.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 og er öllum opið. Fyrirlestur Jennifer fer fram á ensku.

annska@bb.is

DEILA