Verkfall hefur áhrif á markaði

Erlendir fiskkaupendur eru þegar farnir að leita annað eftir fiski eftir að íslenskur fiskur hætti að berast vegna sjómennaverkfallsins. Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.

Í Frakklandi er mikilvægur markaður fyrir íslenskan fisk og segir Guðmundur Stefánsson hjá Novo Foods í Frakklandi að fyrirtæki séu farin að leita annað: „Já það er farið að hafa áhrif. Það er náttúrulega miklu minna framboð af fiski á markaðnum og þess vegna erfiðara um vik og fyrirtækin farin að leita annað.“

Áhrifa verkfalls sjómanna er farið að gæta víða, tekjur fiskvinnslufólks í landi hafa dregist saman, sumar fiskvinnslur hafa gripið til þess að taka fólk af launaskrá, ekki verður veitt undanþága vegna loðnuleitar á fimm skipum og verkbann á vélstjóra er yfirvofandi.

Guðmundur segir, í samtali við Ríkisútvarpið, hættu vera á framtíðarskaða fyrir Íslendinga: „Það er veruleg hætta á því, allavega í einhvern tíma og sérstaklega ef þetta dregst á langinn. Ef viðskiptavinir okkar og þeir sem eru vanir að fá íslenska fiskinn leita annað þá er ekki þar með sagt að þeir komi strax til baka þegar við getum afhent aftur.“

brynja@bb.is

DEILA