Farþegar í áætluðu innanlandsflugi Flugfélags Íslands næstu þrjá daga hafa verið látnir vita af þeim möguleika, að verkfall Flugfreyjufélags Íslands geti skollið á í fyrramálið. Þetta segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri félagsins, í samtali við mbl.is.
Hafa farþegarnir ýmist verið látnir vita með textaskilaboðum í síma eða tölvupósti, eftir þeim upplýsingum sem þeir gáfu upp við bókun.
„Við höfum undirbúið okkar farþega og látið þá vita af þessum möguleika, og boðið þeim valkosti til að bregðast við þessu,“ er haft eftir Árna.
Allt flug Flugfélags Íslands felur niður klukkan sex í fyrramálið ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Samkvæmt verkfallsboðun Flugfreyjufélagsins þá er einnig gert ráð fyrir ótímabundnu verkfalli, sem hefjast mun klukkan sex að morgni sjötta febrúar.
smari@bb.is