Skattamál í Súðavík hafa verið talsvert í umræðunni að undanförnu eftir að sveitarstjórinn Pétur Markan vakti á þeim athygli á hreppsnefndarfundi fyrr í mánuðinum og var í kjölfarið skrifað um málið á vef Bæjarins besta og í fleiri fréttamiðlum. Bæjarbúar hafa lítið tjáð sig um málið opinberlega, en einhverjir hafa nú brugðið á það ráð í skjóli nætur að koma fyrir handgerðum skiltum við bæjarmörkin hvoru megin. Við merki Súðavíkur við utanvert þorpið, má sjá skilti þar sem á stendur: „Velkomin í skattaparadís.“ Við bæjarmörkin innanverð má sjá skilti þar sem á stendur „Velkomin til Tortóla norðursins.“ Bæði skiltin prýða svo myndir af sveitarstjóranum. Ekki er vitað hverjir voru þarna að verki.