Ef mikil fjárfesting í fiskeldi verður að veruleika er fyrirliggjandi að fjölga þarf nýbyggingum í Ísafjarðarbæ – bæði varanlegu húsnæði og skammtímahúsnæði fyrir farandverkafólk. Þetta kemur fram í skýrslu Reykjavík Economics um íbúðamarkaðinn í Ísafjarðarbæ sem unnin var að beiðni sveitarfélagsins. Langvarandi fækkun íbúa er flestum kunn en í skýrslunni er bent á að breytingar á aldursdreifingu íbúa hafi verið sérstaklega óhagfelld. Stórfelld uppbygging í fiskeldi gæti orðið til þess að breyta horfum í lýðfræði sveitarfélagsins.
Það liggur fyrir að sveitarfélagið þarf líklega að byggja sjálft, eða í samvinnu við einkaaðila, húsnæði fyrir aldraða og öryrkja. Það húsnæði sem losnar gæti nýst aðfluttum eða í útleigu til ferðamanna, en ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem hefur verið í örustum vexti í sveitarfélaginu.
Í skýrslunni kemur fram að það sem einkennir húsnæðismarkaðinn í Ísafjarðarbæ er að fjöldamargar íbúðir eru í eigu aðila sem ekki eiga lögheimili í sveitarfélaginu, samtals 224 íbúðir. Flestar eru íbúðirnar á Flateyri eða 67.
smari@bb.is