Tvö umferðaróhöpp í umdæminu

Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í síðustu viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Annað þeirra varð á Súðavíkurhlíð að kveldi 12. janúar þegar  ökumaður missti stjórn á bíl sinni með þeim afleiðingum að hann rann út af veginum og fór veltur ofan vegar.

Ökumaðurinn, sem var einsamall í bifreiðinni, slapp án meiðsla, enda með öryggisbeltið spennt. Bifreiðin var óökufær eftir atvikið.

Hitt óhappið varð á Gemlufallsheiði um miðjan dag sama dag, en þá rann bifreið til og utan í vegrið sem er Bjarnadalsmegin við heiðina. Bifreiðin festist og þurfti að losa hana. Hvorki ökumann eða farþega sakaði.

Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í vikunni. Ökumaðurinn var stöðvaður í umferðareftirliti í miðbæ Ísafjarðar.

Lögreglan lagði hald á pakkasendingu sem send var frá höfuðborgarsvæðinu á ákveðinn aðila í Strandasýslu. Um var að ræða um 4 grömm af kannabisefnum. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

smari@bb.is

DEILA