Í dag er bóndadagur, upphafsdagur þorra, fjórða mánaðar vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Það er spurning hvort margir heimilisfeður hafi gert líkt og kveður á um í þjóðsögum Jóns Árnasonar til að bjóða þorra velkominn, þar sem þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum. Fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu.
Þó ekki margt nútímafólk fagni þorra með þessum hætti, þá er það sannarlega gert. Siðir og venjur breytast í aldanna rás, en nú líkt og til forna er maður manns gaman og eru þau gömlu og nýju sannindi heiðruð á þorranum er fjöldinn allur skemmtir sér á þorrablótum. Gengur nú í garð tími þeirra ágætu mannamóta. Annað kvöld er þorrablót hjóna og sambúðarfólks í Bolungarvík, sem bolvískar konur standa að og er ávallt haldið fyrsta laugardag þorra. Á blótinu reiða trogfélagar fram sinn eigin þorramat og drykk og sýndir eru leikþættir, samdir og leiknir af þorrablótsnefnd. Félagsheimili Bolungarvíkur opnar kl. 19:30 og borðhald byrjar kl. 20:00. Halli og Þórunn leika fyrir dansi að loknu borðhaldi og skemmtun. Á þorrablótinu í Bolungarvík er ætlast er til að konur mæti í upphlut eða peysufötum og karlar í hátíðarbúningi eða dökkum jakkafötum með hálstau.
Á morgun verður einnig hið árlega þorrablót slysavarnadeildarinnar Varnar á Þingeyri haldið í Félagsheimili Þingeyrar. Þar er sá siður á að þorrablótsnefndin sér um að framreiða veitingarnar, sem eru að sjálfssögðu hefðbundinn þorramatur. Húsið opnar klukkan 19 og borðhald hefst klukkan 20. Að loknu borðhaldi verður svo slegið upp dansleik þar sem þeir Stebbi Jóns og Gummi Hjalta halda uppi fjörinu.