Á fundi sveitarstjórnar í Súðavík í lok desember fjallar stjórnin í seinni umræðu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 en áætluð lokaniðurstaða ársins gerir ráð fyrir afgangi upp á rúmar 27 milljónir og handbært fé hækki í tæpar 84 milljónir í árslok. Pétur Markan sveitarstjóri Súðavíkurhrepps bókar í fundargerð að rekstur sveitarfélagsins hafi stórbatnað á kjörtímabilinu en það sé áhyggjuefni hversu útsvarstekjur dragast skart saman milli ára og skýringa sé ekki að leita með fækkun skattbærra manna eingöngu. Pétri þykir líklegasta skýringin að þeim tilfellum þar sem íbúar nota einkahlutafélög til að fjármagna heimilis- og einkaneyslu hafi fjölgað. „Þessi þróun er afar uggvænleg og í raun aðför að samfélaginu sem byggir samrekstur sinn á skattheimtu“ eru lokaorð bókunarinnar.
Í 31. grein laga um tekjuskatt (90/2003) er fjallað um hvaða kostnað megi draga frá tekjum í sjálfstæðum atvinnurekstri. Þar kemur fram í fyrstu málsgrein „þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við“. Í lögum virðist ekki gert ráð fyrir neinu svigrúmi til að fjármagna einkaneyslu í einkahlutfélögum.
Pétur Markan segir í samtali við bb.is í dag að aðallega sé átt við það svigrúm sem fellst í greiðslu lágra launa við eigin atvinnurekstur. „Í bókuninni er bent á þá vá sem fylgir því þegar að útsvarstekjur lækka. Margskonar skýringar geta verið á bakvið slíka þróun. Í tilfelli Súðavíkurhrepps, og þetta er veruleiki allra sveitarfélaga á landinu, verður sveitarfélagið af miklum tekjum vegna einkaneyslu sem tekin er í gegnum fyrirtæki, í stað þess að greiða starfsmönnum hærri laun, sem aftur skilar þér í meira framlagi til samneyslu samfélagsins. Þetta er fyrst og fremst vandamál sem rekja má til of mikils rýmis innan skattalöggjafarinnar hvað við lítur fyrirtækjum. Þá er líka stór hluti vandamálsins að sveitarfélög hafa enga skattheimtu af fyrirtækjum, sem er mikið réttlætismál fyrir sveitarfélög. Sveitarfélag rekur sína þjónustu og velferð á skatttekjum. Ef þær dragast saman, dregst starfsemi sveitarfélagsins saman. Ekkert ábyrgt sveitarfélag lætur þá staðreynd óhreyfða, ef skatttekjur þess dragast meira saman en eðlilegt getur talið. Þá er vegið að tilveru þess og framtíð og við því þarf að bregðast af ábyrgð, hreinskilni og festu.“
Í 7. grein þeirra laga sem áður er vísað til, segir „Vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Á sama hátt skal reikna endurgjald fyrir starf sem innt er af hendi af maka manns eða barni hans sé starfið innt af hendi fyrir framangreinda aðila.“