Útgerðarfélagið Mýrarholt ehf. í Bolungarvík hefur keypt dragnótarbátinn Örn GK. Mýrarholt hefur gert út Ásdísi ÍS í tæp þrjú ár, bæði á rækju og á dragnót. Aflabrögðin á dragnótinni hafa verið með eindæmum góð og á síðasta ári fiskaði Ásdís tæp 1.500 tonn. Frá því er greint í Aflafréttum að um 1.000 þorskígildakvóti hafi verið á Erni og hluti kvótans fylgir með í kaupunum. Mýrarholt er í eigu bræðranna Jóns Þorgeirs og Guðmundar Einarssonar og sona þeirra beggja.
Örn er talsvert stærri en Ásdís, eða 22 m að lengd og átta metra breiður. Báturinn var smíðaður í Póllandi árið 1999 og er sérsmíðaður fyrir dragnótarveiðar. Á vef Aflafrétta er haft eftir Einari Guðmundssyni, skipstjóra á Ásdísi, að afhending Arnar fari fram fljótlega og þá mun báturinn fara í slipp.
smari@bb.is