Knattspyrnumaðurinn Nikulás Jónsson er íþóttamaður Bolungarvíkur árið 2016. Nikulás var tilnefndur af knattspyrnudeild Vestra, en hann lék 20 af 22 leikjum Vestra í 2. deild Íslandsmótsins síðasta sumar og skoraði hann eitt mark. Í umsögn segir að Nikulás hafi undanfarin ár barist við meiðsli og gat lítið æft með meistaraflokki veturinn fyrir síðasta keppnistímabil. Það stöðvaði hann þó ekki í að æfa vel og oft og tíðum einn.
Í umsögn dómefndar segir:
„Í æfingleikjum í vor og fyrstu leikjum sumarsins átti Nikulás ekki fast sæti í liðinu og byrjaði á bekknum. Hann tók því með því að leggja enn meira á sig á æfingum og koma af krafti inn í þá leiki sem hann spilaði. Þegar vantaði bakvörð í liðið stökk Nikulás á þá stöðu og tryggði sér fast sæti í liðinu með góðri frammistöðu og það í stöðu sem hann hafði lítt spilað. Hann var fljótur að aðlagast og átti mjög gott tímabil með liðinu. Þetta lýsir einna best persónugerð Nikulásar, hann eflist við mótlæti og er tilbúinn að taka hagsmuni liðsins fram yfir eigin hagsmuni.
Nikulás hefur spilað 103 leiki fyrir meistaraflokk BÍ/Bolungarvík/Vestra í öllum keppnum frá því að hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2011. Nikulás er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í Bolungarvík. Hann er mikill félagsmaður og ávallt tilbúinn að aðstoða ef eftir því er leitað. Hann er metnaðarfullur, mætir vel á æfingar og æfir aukalega sjálfur. Þá hefur hann sýnt gríðarlegan aga í að æfa einn til að yfirstíga erfið meiðsli sem skilaði sér í kraftmiklum leik hans í sumar með Vestra.“
smari@bb.is