Skip Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, fiskuðu alls 12.114 tonn á síðasta ári að verðmæti 3.131 milljóna króna. Aflinn dróst saman um 13,8% milli ára en árið 2015 fiskuðu skipin 14.054 tonn. Aflaverðmætið minnkaði um tæpan fjórðung, eða úr 4.084 milljónum kr.
Á vef HG er þessi minnkun á afla og verðmæti einkum rakin til þess að allir togarar fyrirtækisins fóru í slipp á árinu, mikillar styrkingar krónunnar og áhrif verkfalls sjómanna á seinni hluta ársins.
Júlíus Geirmundsson ÍS skilaði mestum aflaverðmætum á síðasta ári eða 1.467 milljónum kr. samanborið við 1.901 milljón kr. árið áður. Aflaverðmæti Páls Pálssonar var 869 milljónir kr. en var 1.252 milljónir kr. árið áður. Stefnir fiskaði fyrir 719 milljónir kr. en árið áður var aflaverðmæti Stefnis 844 milljónir kr.
smari@bb.is