Mugison tilnefndur til Hlustendaverðlaunanna

Mugison ásamt hljómsveit sinni á útgáfutónleikum í Edinborgarhúsinu. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Mugison er tilnefndur í tveimur flokkum Hlustendaverðlaunanna 2017. Annars vegar í flokknum plata ársins, þar sem nýjasta plata hans Enjoy! keppir við skífur Skálmaldar, Kaleo, Júníusar Meyvants og Emmsjé Gauta sem einnig komu út á síðasta ári. Hins vegar er Mugison að finna í flokknum söngvari ársins, en þar eru líka þeir: Friðrik Dór, Jökull Júlíusson, Páll Óskar, Júníus Meyvant og Magni.

Það eru: Bylgjan, X-ið. FM957 og Tónlist sem standa fyrir Hlustendaverðlaununum. Allir geta tekið þátt í kosningunni á einfaldan máta með því að smella á „líkar þetta“ við þá listamenn sem þeim fannst skara fram úr á nýliðnu ári. Einnig er kosið í flokkunum: Söngkona ársins, lag ársins, erlenda lag ársins, flytjandi ársins, myndband ársins og nýliði ársins.

Hlustendaverðlaunin verða veitt í Háskólabíói þann 3.febrúar og verður sjónvarpað beint frá þeim á Stöð2.

annska@bb.is

DEILA