Lambakjötsneyslan tók kipp

 

Innanlandssala á lambakjöti var 5,2% meiri 2016 en árið á undan, samkvæmt nýjum tölum Matvælastofnunar. Alls seldust 6.797 tonn innanlands í fyrra, en salan hefur ekki verið meiri síðan hrunárið 2008. Salan dróst saman í þrjú ár þar á undan. Greint er frá þessu í tilkynningu frá Landssamtökum sauðfjárbænda.

Þar er vitnað í Þórarin Inga Pétursson, formann samtakanna, sem fagnar þessum viðsnúningi en bendir á að þetta ger­ist ekki af sjálfu sér. Margir samverkandi þættir hafi stuðlað að þessum góða árangri. Verð á lambakjöti sé mjög hagstætt hér á landi og vöruþróun að komast á skrið.

„Aldrei hefur verið ráðist í öflugra og markvissara kynningarstarf gagnvart erlendum ferðamönnum en núna og árangurinn af því er ótvíræður,“ er haft eftir Þórarni. Íslendingar eru að verða enn meðvitaðri um mikilvægi þess að matvara sé framleidd á hreinan og siðrænan hátt í sátt við samfélag og náttúru.

smari@bb.is

DEILA