Fiskþurrkunarfyrirtækið Klofningur hefur sagt upp fimm starfsmönnum í starfsstöð fyrirtækisins á Brjánslæk. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá þessu. Uppsagnirnar tóku gildi frá áramótum og verður starfsstöðinni lokað. Guðni Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings, vonar að einungis sé um tímabundnar uppsagnir að ræða.
Undanfarið ár hefur rekstur Klofnings verið þungur og tekjur fyrirtækisins hafa lækkað um 65%. Gengi nærunnar, gjaldmiðils Nígeríu, féll og skapaði það erfiða markaðsstöðu. Einnig lækkaði vöruverð Klofnings um allt að 50% í dollurum og styrking krónunnar hefur reynst fyrirtækinu erfið. Auk þess hafa launahækkanir og hráefnisskortur vegna sjómannaverkfalls haft áhrif.
Guðni segir að ekkert hafi verið að gera frá áramótum og er þetta í fyrsta skiptið í 20 ár að fólk sé sent heim. Síðast hafi það gerast á fyrsta rekstrarári Klofnings þegar verkalýðsfélögin á Vestfjörðum fóru í verkfall. Klofningur er með starfsstöðvar á Brjánslæk, á Ísafirði, Tálknafirði og tvær á Suðureyri og vonast Guðni til þess að halda megi rekstrinum gangandi á hinum starfsstöðvum Klofnings en segir útlitið ekki vera bjart.