Jólin kvödd í dag

Þrettándinn, þrettándi og síðasti dagur jóla, er í dag. Ýmis þjóðtrú er deginum tengd hér á landi líkt og að kýrnar tali mannamál og búferlaflutningar álfa. Fólk hefur gjarnan komið saman og kveikt upp elda til að fagna deginum og kveðja jólin og ekki er þá óalgengt að álfarnir sjálfir – í miðjum flutningum, ásamt öðrum furðuverum láti sjá sig. Björgunarsveitin Dýri og íþróttafélagið Höfrungur hafa um árabil haldið saman þrettándagleði á Þingeyri og verður slík í dag klukkan 17. Safnast verður saman innst í Brekkugötu, þar sem seldir verða kyndlar fyrir gönguna og þaðan gengið að Stefánsbúð, þar sem kveikt verður upp í brennunni og sungið. Botninn verður svo sleginn í gleðina með flugeldasýningu björgunarsveitarinnar. Á Þingeyri er hefð fyrir því að börnin bregði sér í allra kvikinda líki á þrettándanum og þrammi um bæinn og sníki sér gott í gogginn og halda þau í þá ævintýraferð að brennu lokinni.

Í Bolungarvík verður sameiginleg þrettándagleði Bolungarvíkurkaupstaðar og Ísafjarðarbæjar við Hreggnasa klukkan 20. Þar mun eldurinn í brennunni loga, dans stiginn og söngvar sungnir við hljóðfæraspil. Að sama skapi endar gleðin þar á flugeldasýningu sem Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík stendur fyrir.

annska@bb.is

DEILA