Í fyrra hóf Ísfell ehf rekstur þvotta- og þjónustustöð fyrir fiskeldispoka á Flateyri en aukið fiskeldi á svæðinu kallar eftir að í boði sé allra handa þjónusta. Netapokarnir eru þvegnir, slitprófaðir, sjónskoðaðir og við þá gert ef þarf á verkstæðinu á Flateyri. Hingað til hefur þurft að aka netapokunum austur á land í þvottastöð, það er því gríðarlegur sparnaður fólgin í því fyrir eldisfyrirtækin á Vestfjörðum að geta fengið þessa þjónustu hér.
Ísfell leigði hluta af Hafnarbakka 8 af Arctic Odda ehf en hefur nú keypt allt húsið en í því var áður fiskmóttaka fyrir Arctic Odda ehf og skrifstofur fyrir Arctic Fish og dótturfyrirtæki. Með í kaupunum fylgdi einnig Gullkistan, viðbyggð skemma sem hefur verið nýtt sem geymsla en í henni fer nú fram saltframleiðsla.
Á heimasíðu Ísfells segir að með þessum kaupum sé fyrirtækið að byggja undir starfsemi sína á Flateyri og huga að framtíðarvexti félagsins á Vestfjörðum samhliða þeim vexti sem er fyrirhugaður hjá fiskeldisfyrirtækjum. Með þessu stóra húsnæði er hægt að bjóða eldisfyrirtækjum upp á geymslu á pokum eftir þvott. Ísfell sér fyrir sér að bæta þjónustu við útgerðir á Vestfjörðum með almennri víra- og netaverkstæðisþjónustu.
Ísfell hefur þegar tekið við eigninni og mun fara í nauðsynlegt viðhald á þaki og útliti þegar fer að vora segir sömuleiðis á heimasíðu Ísfells en húsið er afar illa farið.