Fyrsta Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða á nýju ári fer fram í hádeginu á morgun, föstudaginn 6. janúar. Sú sem ríður á vaðið er Brynja Huld Óskardóttir, sem nýverið útskrifaðist með meistaragráðu í öryggismálafræðum frá Bretlandi. Í erindi sínu mun Brynja Huld fjalla um hryðjuverk og tengsl þeirra við svokölluð sjálfsmyndarstjórnmál (e. identity politics) og utanríkisstefnu. Farið verður yfir nokkur hugtök um hryðjuverk og þá sem þeim beita. Í erindinu svarar Brynja Huld meðal annars spurningum á borð við: „Hvað eru hryðjuverk? Hver notar þau og í hvaða tilgangi? Hvers vegna eru sum lönd viðkvæmari fyrir hryðjuverkum og í því samhengi, hvers vegna er Frakkland skotmark Íslamska ríkisins?“.
Brynja Huld er sem áður segir með MSc gráðu í öryggismálafræðum frá University College London. Áður lagði hún stund á heimspeki í Háskóla Íslands og Sorbonne í París. Í öryggismálafræðunum lagði hún áherslu á utanríkisstefnugreiningu, tengsl utanríkisstefnu við hryðjuverk og þá þætti sem ríki, sem verða fyrir hryðjuverkum, eiga sameiginlega. Undanfarin ár hefur Brynja Huld unnið hjá Fréttastofu Ríkisútvarpins, fyrst sem fréttaritari á Vestfjörðum, svo á fréttastofu í Reykjavík, og í Morgunútvarpi Rásar 2. Þá vann hún sem fjölmiðlafulltrúi hjá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Í janúar hefur hún störf við áhættugreiningu hjá Jane’s Terrorism and Insurgency Centre í London, þar sem hún mun vinna í teymi sem vaktar og greinir átök, óeirðir og hryðjuverk. Eins og glöggir lesendur Bæjarins besta hafa eflaust tekið eftir hefur Brynja Huld skrifað fyrir BB síðustu tvo mánuði í fjarveru Smára Karlssonar, en brátt mun hún halda til Englands á ný.
Fyrirlesturinn fer fram á íslensku en hann hefst kl. 12.10 og að honum loknum verða fyrirspurnir og umræður. Að venju er Vísindaportið opið öllum áhugasömum.