Hlýjasta ár á Vestfjörðum frá upphafi mælinga

Árið 2016 var sérlega hlýtt hér á landi. Við Breiðafjörð og á Vestfjörðum var árið það hlýjasta frá því að mælingar hófust og í hópi þeirra hlýjustu í öðrum landshlutum. Hiti fyrstu tvo mánuðina var þó nærri meðallagi en haustið sérlega hlýtt. Vindar voru með hægara móti. Fremur þurrt var um tíma, frá því síðla vetrar og fram á sumar, en haustið óvenju úrkomusamt, sérstaklega um landið sunnanvert.

Meðalhiti í Reykjavík var 6,0 stig og er það 1,7 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Er þetta 21. árið í röð með hita yfir meðallagi og næsthlýjast þeirra 146 ára sem samfelldar mælingar ná til ásamt 2014. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 5,5 stig, 2,0 stigum yfir meðallagi. Þetta er hlýjasta ár frá upphafi mælinga í Stykkishólmi 1846. Á Akureyri var meðalhitinn 4,9 stig, 1,7 stigi ofan meðallags. Þar var nokkru hlýrra árið 2014. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 6,0 stig, 1,2 stigum ofan meðallags. Á landsvísu var hitinn 1,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, og en 0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Á vef Veðurstofu Íslands má sjá yfirlit yfir tíðarfar ársins 2016, hita og úrkomu. Einnig má það sjá það sem bar helst til tíðinda í veðurfari á landinu hvern mánuð fyrir sig.

annska@bb.is

DEILA