Með nýjum ráðherrum í ríkisstjórn Íslands taka einnig við nýjum störfum aðstoðarmenn þeirra. Meðal þeirra sem það gerir er ísfirðingurinn Gylfi Ólafsson, sem er nú aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra og er hann nú tekinn til starfa í ráðuneytinu. Gylfi leiddi lista Viðreisnar á Vestfjörðum í alþingiskosningum síðasta haust. Flokkurinn kom ekki inn manni í kjördæminu en Gylfi tók í framhaldinu við starfi sem aðstoðarmaður formanns flokksins. Er Benedikt tók við lyklavöldum á mánudag úr höndum Bjarna Benediktssonar, tók Gylfi við starfsmannamöppu frá fráfarandi aðstoðarmanni, Svanhildi Hólm. Segir hann nýtt starf leggjast vel í sig:
„Við Benedikt höfum unnið saman síðustu mánuði, fyrst í kosningabaráttunni og svo hef ég verið aðstoðarmaður hans sem formanns að kosningum loknum. Það samstarf hefur gengið afar vel. Okkur báðum hentar vel að fara í fjármálaráðuneytið, í mínu tilviki vegna menntunar minnar í hagfræði.
Þennan eina vinnudag sem ég hef verið hér hefur okkur verið afar vel tekið og augljóst að hér starfar fært og glaðsinna starfsfólk. Hér er einnig annar Ísfirðingur, Leifur Skarphéðinsson, og við höfum nú þegar stofnað stuðningshóp fólks sem segir „á helginni“.“
Gylfi hefur ekki af því neinar áhyggjur að sitja auðum höndum í nýju starfi og mörg verkefni sem bíða í ráðuneytinu. „Við ætlum að ganga vasklega til verks og vinna að þeim málum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem undir fjármálaráðuneytið heyra, en þar falla bæði stór og smá verkefni. Eitt það stærsta er kannski endurskoðun peningastefnu, en endurskoðun skattkerfis, stöðugleikasjóður og fleira er þar einnig að finna. Svo er það nú með þetta starf að það óvænta getur oft tekið langmestan tíma.“
Hvað hann sjálfan áhrærir segir Gylfi hans helsta hlutverk verða að sjá til þess að ráðherra geti sinnt starfi sínu sem best í hvaða mynd sem það birtist og segir hann það eiga eftir að þróast á næstu vikum.