Gjaldskrárhækkanir hjá OV

Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða hækkuðu frá og með 1. janúar gjaldskrá fyrir dreifingu raforku um 7% en 4% fyrir sölu. Á sama tíma hækkuðu niðurgreiðslur vegna húshitunar sem að einhverju leiti dregur úr kostnaðaraukningu heimila. Á vef OV segir að áhrif hækkunarinnar á heildarorkukostnað heimila verða minnst hjá heimilum í þéttbýli sem nota fjarvarma til upphitunar, eða 2,1%, en hækkun hjá þeim sem nota rafmagn til upphitunar verður 4,5% í þéttbýli en 5% í dreifbýli. Helsta ástæða hækkunarinnar er sögð vera 13% hækkun á flutningi raforku hjá Landsneti sem er innifalin í hækkun Orkubúsins fyrir dreifingu, ásamt almennum kostnaðarhækkunum og hækkun launa.

Svo raforkukaupendur geti betur glöggvað sig á hækkununum tekur OV nokkur dæmi um breytingarnar: Fyrir dæmigert heimili í þéttbýli sem notar fjarvarmaveitu til upphitunar þá hækkar orkureikningur mánaðarins um 500 krónur eða um 6.000 krónur á ári. Hækkunin nemur 2,1%. Þá er miðað við að heimilið noti um 30.000 kWst í upphitun á ári og 5.000 kWst í almenna notkun. Fyrir sambærilegt heimili í þéttbýli sem notar raforku til upphitunar þá hækkar orkureikningur mánaðarins um 1.056 krónur eða 12.672 kr á ári. Hækkunin nemur 4,45%. Fyrir heimili í dreifbýli sem notar sömu orku á ári þá hækkar reikningurinn um 1.293 krónur á mánuði eða 15.510 krónur á ári. Hækkunin þar nemur því 5%. Dæmi um hækkun hjá atvinnufyrirtæki sem notar 350.000 kWst á ári og 72 kW afl er alls 5,6% fyrir dreifingu flutning og sölu.

Vestfirðingar hafa löngum verið í flokki þeirra landsmanna sem greiða mestan orkukostnað á landinu. Í desember var fjallað um niðurstöður útreikninga sem Byggðastofnun fékk Orkustofnun til að gera á orkukostnaði í nokkrum þéttbýlis- og dreifbýlisstöðum á landinu sem leiddi í ljós mestan mun á orkuveitusvæði RARIK og Orkubús Vestfjarða í dreifbýli og á Seltjarnarnesi, þar sem munur á mánaðarlegum greiðslum nam 287%.

annska@bb.is

DEILA