Fleiri landsmenn á aldrunum 25-64 ára voru háskólamenntaðir en með framhaldsskólamenntun árið 2015. Árið 2014 voru háskólamenntaðir 25-64 ára íbúar á Íslandi í fyrsta skipti fleiri en íbúar með menntun á framhaldsskólastigi, en munurinn var innan skekkjumarka. Árið 2015 var munurinn hins vegar marktækur en þá voru háskólamenntaðir 25-64 ára 38,9% íbúa á Íslandi (64.600), 35,9% höfðu lokið framhaldsskólastigi (59.600) og 25,2% höfðu eingöngu lokið grunnmenntun, þ.e. styttra námi en framhaldsskólastigi (41.900), samkvæmt niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Íbúum með háskólamenntun fjölgaði um 3.400 frá fyrra ári en íbúum, sem aðeins hafa grunnmenntun, fækkaði um 2.200.
Fjölgun háskólamenntaðra má að miklu leyti rekja til fjölgunar háskólamenntaðra kvenna, og fækkun þeirra sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun má líka rekja að miklu leyti til aukinnar menntunar kvenna. Minni breytingar hafa orðið á menntun karla á árunum 2003-2015. Þessar upplýsingar er að finna í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands og má lesa frekar hér.